Píta! Píta!

Jæja - meiningin var nú að vera aðeins duglegri við bloggið en þetta, en saumaklúbbar, partýstand og eftirköstin þar af hafa hálfpartinn lagt mig í rúmið af þreytu (eða kannski leti?). Geisp...

En í kvöld ákvað ég að skella í pítur og baka brauðin sjálf. Ungmennið á heimilinu vill nefnilega helst hafa pítubrauðin þykk og mikil, þó við hin látum okkur svosem alveg nægja þessi þunnu frá honum Jakobi. Jæja, þykkildi skyldi ég baka.

Ég er nú ansi góð í gerbakstri, þó ég segi sjálf frá, og var því ekkert að hafa fyrir því að fletta í uppskriftabókum... 

Pítubrauð: imag1231.jpg

400 gr hveiti

6 gr þurrger (eða hálfur lítill pakki, ef þið notið svoleiðis)

1/2 tsk salt

Þurrefnunum er blandað létt saman í skál áður en sett er út í:

80 gr olía

200 ml volg mjólk

Þetta er svo hnoðað vel saman í ca 5 mínútur í hrærivélinni (með hnoðarann á, ofkors) eða í ca 10 mínútur í höndum þar til deigið er orðið slétt og fellt og nokkuð teygjanlegt. Mótið deigið í kúlu og veltið henni upp úr svolítilli olíu, bara rétt til að húða - þá festist deigið ekki við skálina. Látið svo hefast á hlýjum stað í amk klukkustund - jafn vel lengur (ég t.d. hnoðaði upp í, fór svo í heimsókn og kom heim 3 klst seinna... höhömm).

Eftir hefun er deigið slegið niður og hnoðað örlítið, flatt út þar til ca 1/2 cm þykkt og svo eru brauðin stungin út með stóru hringlaga kökuformi eða skorin út eftir t.d. undirskál eða hverju því sem ykkur þykir passleg stærð. Mér þykir ekki huggulegt að móta kúlur og fletja þær út, því þá verða brauðin frekar eins og rúnstykki. Svo er bara hnoðað saman og flatt út aftur þar til allt deigið hefur verið mótað í pítubrauð.

imag1235.jpgJæja! Setjið brauðin á bökunarplötu og látið hefast þar í amk 30 mín (ekki minna!) og bakið svo við 200°C í u.þ.b. 15-20 mín (fer eftir ofninum trúlega) eða þar til þau eru farin að taka lit.

Ég gerði frekar lítil brauð og fékk 10 stk úr deiginu, en ætli þau verði ekki ca 6 stk ef þau eru höfð í bakarís-stærð.

Í öllu falli! Mjög vel heppnuð og góð pítubrauð - hugsa að Jakob verði ekki keyptur aftur. Eins held ég að ég eigi eftir að nota þessa uppskrift til að gera hamborgarabrauð, þá má pensla brauðin með eggi/mjólk og strá sesamfræjum.

imag1236_1187410.jpg

Græðgin var nú svoleiðis að ekki náðist mynd nema af  hálfétinni pítu með buffi og grænmeti...

Namm!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband