Píta! Píta!

Jæja - meiningin var nú að vera aðeins duglegri við bloggið en þetta, en saumaklúbbar, partýstand og eftirköstin þar af hafa hálfpartinn lagt mig í rúmið af þreytu (eða kannski leti?). Geisp...

En í kvöld ákvað ég að skella í pítur og baka brauðin sjálf. Ungmennið á heimilinu vill nefnilega helst hafa pítubrauðin þykk og mikil, þó við hin látum okkur svosem alveg nægja þessi þunnu frá honum Jakobi. Jæja, þykkildi skyldi ég baka.

Ég er nú ansi góð í gerbakstri, þó ég segi sjálf frá, og var því ekkert að hafa fyrir því að fletta í uppskriftabókum... 

Pítubrauð: imag1231.jpg

400 gr hveiti

6 gr þurrger (eða hálfur lítill pakki, ef þið notið svoleiðis)

1/2 tsk salt

Þurrefnunum er blandað létt saman í skál áður en sett er út í:

80 gr olía

200 ml volg mjólk

Þetta er svo hnoðað vel saman í ca 5 mínútur í hrærivélinni (með hnoðarann á, ofkors) eða í ca 10 mínútur í höndum þar til deigið er orðið slétt og fellt og nokkuð teygjanlegt. Mótið deigið í kúlu og veltið henni upp úr svolítilli olíu, bara rétt til að húða - þá festist deigið ekki við skálina. Látið svo hefast á hlýjum stað í amk klukkustund - jafn vel lengur (ég t.d. hnoðaði upp í, fór svo í heimsókn og kom heim 3 klst seinna... höhömm).

Eftir hefun er deigið slegið niður og hnoðað örlítið, flatt út þar til ca 1/2 cm þykkt og svo eru brauðin stungin út með stóru hringlaga kökuformi eða skorin út eftir t.d. undirskál eða hverju því sem ykkur þykir passleg stærð. Mér þykir ekki huggulegt að móta kúlur og fletja þær út, því þá verða brauðin frekar eins og rúnstykki. Svo er bara hnoðað saman og flatt út aftur þar til allt deigið hefur verið mótað í pítubrauð.

imag1235.jpgJæja! Setjið brauðin á bökunarplötu og látið hefast þar í amk 30 mín (ekki minna!) og bakið svo við 200°C í u.þ.b. 15-20 mín (fer eftir ofninum trúlega) eða þar til þau eru farin að taka lit.

Ég gerði frekar lítil brauð og fékk 10 stk úr deiginu, en ætli þau verði ekki ca 6 stk ef þau eru höfð í bakarís-stærð.

Í öllu falli! Mjög vel heppnuð og góð pítubrauð - hugsa að Jakob verði ekki keyptur aftur. Eins held ég að ég eigi eftir að nota þessa uppskrift til að gera hamborgarabrauð, þá má pensla brauðin með eggi/mjólk og strá sesamfræjum.

imag1236_1187410.jpg

Græðgin var nú svoleiðis að ekki náðist mynd nema af  hálfétinni pítu með buffi og grænmeti...

Namm!


Af mat og... ja... mat!

Hún Ylfa Mist var mér svo mikill innblástur að ég ákvað að dusta rykinu af þessu bloggi (sem var nú aldrei neitt neitt svosem) - en persónulegu bloggin hennar, þar sem matur er aðal innihaldsefnið, eru bara svo miklu skemmtilegri en hápólitíska argaþrasið sem maður er útsettur fyrir á internetinu eins og það leggur sig. Enda þykir mér gott að borða... eins og Ylfu (hún er samt í pólitík - bæjarstjórn meira að segja).

Ég a.m.k. nenni MIKLU frekar að lesa um góðan mat og lykkjuföll en lánshæfismat og gengisföll! Og svo skal það vera hér (hvort einhver nenni að lesa, er svo önnur saga). Hér verður skrifað um mat, prjónaskap og handavinnu almennt ásamt daglegu stússi og þvíumlíku - með jákvæðnina í fyrirrúmi (vonandi oftast)!

Byrjum þetta á súpu... nánar tiltekið grænmetissúpu með rauðum linsubaunum. Þetta er nú bara svona skápaskrap, eins og ég kalla það, en þá er notað það sem til er í skápunum. Hráefnislistinn er langur hér, en hann þarf ekki að vera það. Það má nota allskonar grænmeti og í stað bauna (eða til viðbótar við þær) má t.d. setja kjúkling. Svona var þó súpan mín í kvöld - góð var hún og ódýr! Sá litli borðaði merkilega vel af henni og bróður hans þótti hún "ekkert svo vond", sem er eiginlega toppeinkunn á hans mælikvarða!

En jæja - svona var hún: Súpan

1 msk. olía

1/4 græn paprika, skorin í litla bita

1/2 rauð paprika, einnig skorin í litla bita

1 væn gulrót í sneiðum

1/2 laukur, mjög fínt skorinn

1 hvítlauksrif, pressað

1/4 haus hvítkál í litlum strimlum

ca 1 bolli iceberg salat í strimlum

1 bolli kartöflur í teningum (ca 1x1 cm)

2 bollar sæt kartafla í teningum (ca 1x1 cm)

3 tsk. Himneskur grænmetiskraftur

1 dós tómatar

2 msk tómatmauk

1 1/2 dl rauðar linsubaunir

ca 1 l. vatn

Salt og pipar eftir smekk

2 vænar msk. rjómaostur

Ég byrjaði á því að fínsaxa lauk  á meðan olían hitnaði í pottinum - eiginmaðurinn er með andlegt ofnæmi (ekki líkamlegt) fyrir lauk, en borðar hann ef mér tekst að fela hann nógu vel í matnum. Laukurinn er svo svissaður í olíunni í 2-3 mín og þá er hvítlauknum bætt út í. Næst er öllu grænmetinu (nema kartöflum og sætum...) bætt út í og steikt svolítið þar til það fer að gefa frá sér safa. Næst er það vatn, tómatar og tómatmauk, smá salt og pipar, lok sett á pottinn og suðan látin koma upp. Þegar farið er að sjóða eru rauðu linsubaunirnar settar út í og súpan er látin malla í ca 15 mínútur áður en kartöflunum er bætt út í. Þetta er svo látið malla þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar, ca 10 mínútur. Rétt áður en súpan er borin fram er rjómaostinum hrært saman við og smakkað til með salti og pipar.

imag1213.jpgRjómaosturinn breytir ÖLLU. Hann dempar sýruna í tómötunum og kallar fram alveg dásamlegt bragð! Ég notaði hreinan rjómaost, en hvítlauksrjómaostur er örugglega alveg jafn góður, ef ekki betri. Súpan mín var vel þykk og matarmikil, því þannig þykir mér hún best, og svo er líka frekar erfitt fyrir smáfólk að borða mjög þunnar súpur. Karlpeningurinn fékk sér ristað brauð með osti "on ðe sæd" en ég lét mér nægja slettu af sýrðum rjóma út á minn disk - enda í hveitifráhaldi... svona að mestu!

Og rosalega er ég södd!

Nú er það saumaklúbbur með skemmtilegu konunum sem ég vinn með, þar sem ég byrja á því að rekja upp...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband